Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum samkvæmt lögum

MEGIN lögmannsstofa ehf
Björn Jóhannesson
Skipholti 50D
105 Reykjavík

Reykjavík 3. febrúar 2012
Tilv.: FJR12010113/16.2.3

Efni: Úrskurður vegna kæru Megin lögmannstofu fyrir hönd [X], dags. 7. janúar 2012.

Ráðuneytið vísar til kæru, dags. 7. janúar 2012 þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun tollstjóra, dags. 30. nóvember 2011 um að hafna beiðni [X] um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum samkvæmt lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Í kærunni er gerð sú krafa að ákvörðun tollstjóra verði felld úr gildi og að fallist verði á umsókn kæranda um greiðsluuppgjör opinberra gjalda.

Málavextir og málsástæður
Þann 1. apríl 2011 úrskurðaði ríkisskattstjóri um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2006 hjá kæranda. Í úrskurðinum kemur fram að tekjuskattsstofn félagsins hækkaði um kr. 5.684.138 með álagi, rekstrartekjur félagsins hækkuðu um kr. 4.156.971, útskattur félagsins hækkaði um kr. 1.018.458, fjárhæð álags á tekjuskattsstofn varð kr. 1.039.243 og fjárhæð álags á vangreiddan virðisaukaskatt varð kr. 101.845.

Þann 15. júlí 2011 gerði kærandi greiðsluáætlun hjá sýslumanninum í Hafnarfirði um framangreinda skuld. Í kærunni kemur fram að kæranda hafi þá ekki verið bent á úrræði samkvæmt lögum nr. 24/2010. Með bréfi dags, 28. nóvember 2011 óskaði kærandi eftir greiðsluuppgjöri samkvæmt lögum nr. 24/2010 hjá tollstjóra. Tollstjóri hafnaði beiðni kæranda með ákvörðun dags. 30. nóvember 2011. Í ákvörðun tollstjóra kemur fram að samkvæmt 1. gr. laga nr. 24/20101 komi fram að hægt sé að sækja um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum til 1. júlí 2011 og þar sem umsóknin hafi borist embætti Tollstjóra 28. nóvember 2011 sé umsóknin of seint fram kominn og því ekki heimilt að veita heimild til greiðsluuppgjörs.

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi allt frá stofnun félagsins staðið skil á öllum opinberum gjöldum til ríkissjóðs en verkefnastaða félagsins hafi tekið gríðarlegum breytingum við það efnahagslega hurn sem varð á Íslandi í október 2008 og hafi félagið haft lítið af verkefnum frá árslokum 2008. Rekstur félagsins hafi því verið í lágmarki á árunum 2009 - 2011 auk þess sem félagið standi í viðræðum við Landsbankann hf. um mögulega samninga um uppgjör skulda en ekki liggi fyrir hvort samkomulag takist um þau mál. Í kærunni kemur einnig fram að kærandi uppfylli skilyrði 2. gr. laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör en honum hafi láðst að senda inn umsókn þar til eftir tilgreindan frest 1. gr. laganna. Ástæður þess megi meðal annars rekja til þess að mjög stutt var frá endurákvörðun ríkisskattstjóra að meðtöldum kærufresti til yfirskattanefndur, þar sem fresturinn til að sækja um greiðsluuppgjör rann út. Það sé ljóst að mjög erfitt verði fyrir kæranda að greiða fyrrgreind opinber gjöld nema til komi samningur um greiðsluuppgjör við innheimtumann ríkissjóðs og þá með því að að minnsta kosti hluti skuldarinnar verði settur á skuldabréf með vísan til 5. gr. laga nr. 24/2010.

Með bréfi, dags. 12. janúar 2012, óskaði ráðuneytið umsagnar tollstjóra vegna kærunnar. Í umsögn tollstjóra, dags. 2. febrúar 2012, kemur fram að hann telji að ákvörðun hans hafi að geyma þau sjónarmið sem vægi hafa við úrlausn málsins. Tollstjóra sé ekki heimilt að veita undanþágur frá lögboðnum umsóknarfrestum úrræðis um greiðsluuppgjör skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2010. Tollstjóri vekur athygli ráðuneytisins á því að úrræðið var auglýst sérstaklega í fjölmiðlum í aðdraganda þess að umsóknarfrestur úrræðisins rann út. Þá tekur tollstjóri fram að umsóknum um greiðsluuppgjör sem borist hafi eftir 1. júlí 2011 hafi verið hafnað á sama lagagrunni og að með vísan til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins sé ekki heimilt að fara öðruvísi með mál kæranda en mál aðila í sambærilegri stöðu.

Forsendur og niðurstaða
Lög nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, hafa að geyma ákvæði um hvaða skilyrði framangreindir aðilar verði að uppfylla til þess að geta notið ívilnandi meðferðar til að gera upp vanskil á sköttum sem gjaldféllu fyrir 1. janúar 2010. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna gátu lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem voru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem gjaldféllu fyrir 1. janúar 2010 sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011. Í 2. gr. eru síðan talin upp þau skilyrði sem þurfti að uppfylla til þess að umsækjandi fengi frest til greiðsluuppgjörs.

Skilyrði laganna varðandi frest til að sækja um greiðsluuppgjör er afráttarlaust og með vísan til þess að umsókn kæranda barst tollstjóra eftir 1. júlí 2011 þ.e. eftir að frestur rann út til að sækja um frest til greiðsluuppgjörs hafnar ráðuneytið umsókn yðar um greiðsluuppgjör. Í umsögn tollstjóra kemur fram að auglýst hafi verið sérstaklega í fjölmiðlum heimild til að sækja um frest til greiðsluuppgjörs skv. lögum nr. 24/2010 og með vísan til jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna verða skilyrði laganna að gilda fyrir alla aðila sem gátu nýtt sér úrræði þeirra.

Úrskurðarorð
Ákvörðun tollstjóra, dags. 30. nóvember um að hafna beiðni yðar, dags. 28. nóvember 2011, um greiðsluuppgjör skv. lögum nr. 24/2010 er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra










Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum